Innlent

Sektir gætu orðið tvöföld vanskil

Tíu sæta ákærum í málum vegna fyrirtækja sem eru í eigu feðganna Sveins R. Eyjólfssonar og Eyjólfs Sveinssonar, eða þeim tengd. Kærurnar varða vanskil á virðisaukaskatti og opinberum gjöldum, en að auki eru Eyjólfur og Svavar Ásbjörnsson, fyrrum fjármálastjóri Fréttablaðsins ehf. og Vísis.is ehf. sakaðir um umboðssvik. Þeir eru sagðir hafa millifært á tímabilinu 29. apríl til 27. maí 2002 tæpar 25 milljónir af reikningi Vísis.is yfir á reikning Fréttablaðsins ehf. þannig að heimildarlaus yfirdráttur nam tæpum 24 milljónum króna. Alls nema vanskil á virðisaukaskatti og opinberum gjöldum rúmum 104 milljónum króna, en þau eru tengd rekstri fyrirtækjanna Fréttablaðsins ehf., Vísis.is ehf., Dagsprents hf., Markhússins-markaðsstofu ehf., Nota Bene hf., Info skiltagerðar ehf., Póstflutninga ehf. og ÍP-prentþjónustunnar ehf. Ákæru sæta framkvæmdastjórar og stjórnarmenn sem komu að rekstri fyrirtækjanna, en málið höfðar fyrir hönd Ríkislögreglustjóra Jón H. Snorrason saksóknari, yfirmaður efnahagsbrotadeildar. Í yfirlýsingu sem lögmenn Sveins R. Eyjólfssonar og Eyjólfs Sveinssonar sendu út í gær segir að mikilvægt sé að mál sem tengist þeim feðgum "og hafi í 3 ár verið til umfjöllunar hjá opinberum aðilum, með tilheyrandi fjölmiðlaathygli, séu nú loksins komin til meðferðar". Þar segir að refsiábyrgð vegna vörsluskatta sé að mörgu leyti gölluð og ekki rökrétt að sama refsiábyrgð fylgi því að greiða slíka skatta einum eða nokkrum dögum eftir gjalddaga og að greiða þá alls ekki. Lög kveða á um að sekt skuli nema að minnsta kosti tvöföldum vanskilum. "Þannig stendur á, og það mun koma fram við rekstur þessa dómsmáls, að langstærstur hluti þeirra fjárhæða sem tilgreindar eru í ákæruskjali og tengjast fyrirtækjum skjólstæðinga okkar hefur þegar verið greiddur," segir í yfirlýsingunni. Þá kemur fram að Sveinn og Eyjólfur telji að í ljós muni koma að í greiðsluerfiðleikum fyrirtækja þeirra hafi verið fullur vilji til að fara að lögum. Áréttað er að þeir feðgar tengist ekki eignaböndum þremur fyrirtækjanna sem nefnd eru í ákæru Ríkislögreglustjóra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×