Innlent

Kynferðisbrotum fækkaði um 25%

Tilkynningum um kynferðisbrot í Reykjavík fækkaði um fjórðung í fyrra, innbrotum fækkaði um 12%, en fíkniefnabrotum fjölgaði um 3%. Karlar voru rúm áttatíu prósent þeirra sem handteknir voru. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu lögreglustjórans í Reykjavík fyrir árið 2004. 128 kynferðisbrot voru tilkynnt til lögreglunnar í Reykjavík, um fjórðungi færri en árið 2003. Þar af voru 24 nauðganir miðað við 33 árið áður. Eitt mál sem tengist vændi var kært. Rannsókn málsins er að mestu lokið en vændið fór fram á nuddstofu þar sem boðið var upp á það sem kallað er erótískt nudd. Tilkynntum ofbeldisbrotum í Reykjavík hefur fækkað um þriðjung síðustu fimm árin. Fíkniefnabrotum hefur hins vegar fjölgað stöðugt frá árinu 2000 og voru 731 í fyrra. Tæplega 6.000 auðgunarbrot voru tilkynnt, þar á meðal tólf kærur vegna svika í netviðskiptum. Tuttugu og sjö rán voru framin, rétt eins og í fyrra og í hittifyrra. Lögreglan skráði 24.300 umferðarlagabrot í umdæminu sem jafngildir því að fimmti hver íbúi á svæðinu hafi verið gripinn fyrir brot á umferðarlögum í fyrra. Handtökur voru tæplega fjögur þúsund og voru 2.123 einstaklingar handteknir, þar af voru 1.533 vistaðir í fangageymslum. Karlar voru 82% þeirra sem handteknir voru. Lögreglan í Reykjavík sinnti að jafnaði 216 verkefnum á sólarhring í fyrra eða níu á hverri klukkustund. Lögreglustjóranum tókst líka að halda vel utan um budduna en um 50 milljón króna afgangur varð af rekstrinum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×