Menning

Fá útrás fyrir keppnisskapið

Þeir sem hafa lagt leið sína í Veggsport heilsuræktina hafa eflaust tekið eftir "skvass-fjölskyldunni miklu" sem þar virðast dvelja öllum stundum. Um er að ræða fimm manna fjölskyldu: Mömmu, pabba og þrjú börn sem öll æfa veggtennis af miklu kappi. Svo miklu reynar að liggur við slagsmálum við matarborðið þegar heim er komið. "Við eigum eiginlega heima hérna í Veggsporti. Það er svo ofboðslega gaman að vera hér, góður andi og frábær aðstaða," segir Brynja Halldórsdóttir, mamman í fjölskyldunni. Hún mætir nær daglega í Veggsport með manni sínum Jóni Þorbjörnssyni og börnunum: Rósu, Þorbirni og Matthíasi. Þau eru öll sammála um að veggtennis sé góð íþrótt. "Þetta er rosa góð líkamsrækt og reynir jafnt á allan líkamann. Maður byggir upp þol og styrkir sig," segir Rósa og mamma hennar bætir því við að það sé líka gaman að fá útrás fyrir keppnisskapið. "Hingað til hefur þetta ekki valdið miklum slagsmálum en það gæti breyst núna þegar krakkarnir eru farnir að ná foreldrunum," segir Brynja og Matthías bendir á að þeir bræðurnir séu alveg að ná þeim. Jón, Brynja og Rósa æfðu áður tennis og segjast hafa kynnst veggtennis í gegnum það. "Maður þarf að æfa tennis dálítið lengi til að geta haft gaman af honum en þetta kemur miklu fyrr í skvassinu. Auðvitað tekur tíma að verða fær og þetta krefst mikillar tækni en maður er tiltölulega fljótur að ná þessu -- alla vega þannig að maður geti spilað sér til skemmtunar," segir Jón en veggtennis virðist njóta vaxandi vinsælda hér á landi. Fjölskyldan spræka spilar hins vegar alls ekki eingöngu til að leika sér. "Hver einasti leikur er eins og úrslitaleikur og það er aldrei gefið eftir," segir Brynja og bætir því við að Rósa sé langbest enda Íslandsmeistari í greininni. Hún spilaði einmitt síðasta úrslitaleik við móður sína og hefur keppt á fjölmörgum mótum innanlands sem utan. Jón hefur einnig náð góðum árangri og að sjálfsögðu stefna strákarnir á toppinn. Þótt keppnisskapið sé mikið og baráttan oft hörð hefur fjölskyldunni tekist að komast stórslysalaust frá íþróttinni. Nokkrar skrámur hér og þar eru ekkert til að kvarta undan. Rósa bendir þó á að meiðsli geti alveg átt sér stað og það sé nauðsynlegt að hita vel upp. "Ég reyni að kenna gömlu hjónunum að hita upp en þau eru frekar löt við það," segir Rósa. Foreldrar hennar malda í móinn með því að benda á að þau hafi margra ára forskot í upphitun. "Maður ætti nú að vera orðinn heitur eftir öll þessi ár," segir Brynja og hlær.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×