Innlent

Ráðuneyti og lögregla semja

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og Böðvar Bragason lögreglustjóri skrifuðu síðdegis í gær undir samning um árangursstjórnum og markmið lögreglunnar í Reykjavík. Lögregluembættið kynnti einnig stefnumótun ársins og kynnt var ársskýrsla lögreglunnar fyrir árið 2004. Dómsmálaráðherra fagnaði samningnum og sagði hann þann fyrsta sinnar tegundar hér á landi. Hann sagði samninginn mikilvægt skref í að lögregla og ráðuneyti næðu saman um þau markmið og verkefni sem í honum eru skilgreind. Björn greindi einnig frá því að áfram yrði starfað að undirbúningi sáttaumleitana og uppbyggilegrar réttvísi að erlendri fyrirmynd. "Við munum styðjast við reynslu úr Grafarvogi og af verkefninu Hringnum sem þar hefur verið rekið," sagði hann. Þá upplýsti hann að í haust yrðu lagðar fram til ráðuneytisins tillögur framkvæmdanefndar um stærri löggæsluumdæmi, en stærri lögreglulið sagði hann líklegri til árangurs í breyttu glæpaumhverfi þar sem viðfangsefni yrðu sífellt stærri og flóknari.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×