Innlent

Sýknaður af ákæru um hasssmygl

Héraðsdómur Reykjaness sýknaði síbrotamann af ákæru um tilraun til að smygla hassi til landsins, en það fannst við gegnumlýsingu á farangri hans á Kastrup-flugvelli í Kaupmannahöfn. Í skýrslu lögreglunnar í Danmörku segir að maðurinn hafi viðurkennt að hafa ætlað að flytja efnið til Íslands fyrir vin sinn en ekki viljað upplýsa hver það væri. Saksóknari lagði ekki önnur sönnunargögn fyrir dóminn en þessa lögregluskýrslu, sem ákærði hafði ekki undirritað og sagði fyrir dómi að væri röng. Líklegast væri að einhver hefði komið hassinu fyrir í töskunni hans án vitneskju hans. Dómarinn taldi að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að sanna sekt mannsins, sem hefur alls 29 sinnum fengið dóm, síðast árið 2002.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×