Innlent

Tóku feil og réðust á lögreglumenn

Fjórir karlmenn og ein kona réðust að ómerktum lögreglubíl í Hafnarfirði og skemmdu töluvert skömmu fyrir klukkan eitt á aðfaranótt föstudags. Í bílnum voru tveir óeinkennisklæddir lögreglumenn við eftirlit. Lögreglubílnum var ekið út í kant við Hverfisgötu í miðbæ Hafnarfjarðar til að hleypa bíl árásarmannanna hjá, en honum hafði verið ekið á eftir lögreglubílnum nokkra stund. Sá var þá einnig stöðvaður og ráðist á lögreglubílinn þannig að fremri hliðarrúður voru brotnar og skemmdir unnar á vélarhlíf og víðar. Lögreglan í Hafnarfirði sagði markiðið virðasta hafa verið að ná til þeirra sem í bílnum voru. Lögreglumennirnir óeinkennisklæddu handtóku tvo á staðnum, karlmann á þrítugsaldri og tæplega tvítugan pilt. Hinir mennirnir og konan voru svo handtekin í gærdag og stóðu yfirheyrslur yfir fram eftir degi. "Eftir yfirheyrslur á fólkinu er ekkert sem bendir til þess að árásin hafi beinst að lögreglumönnunum, " sagði Kristján Ó. Guðnason, aðstoðaryfirlögregluþjónn í Hafnarfirði. Hann sagði að svo virtist sem fólkið hafi farið mannavillt og talið sig vera að ráðast á mann sem það átti við einhverjar óuppgerðar sakir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×