Innlent

Afgreiðslustjóri sparisjóðs dæmdur

37 ára gömul kona var fyrir helgi dæmd í níu mánaða fangelsi og til greiðslu rúmlega átta milljóna króna skaðabóta til Sparisjóðs Hafnarfjarðar vegna umboðssvika í störfum sínum fyrir sjóðinn árin 2000 til 2003. Konan starfaði sem afgreiðslustjóri hjá sparisjóðnum og notaði aðstöðu sína til að heimila skuldfærslur á kreditkort sín þrátt fyrir vanskil og til að taka út peninga. Þá stofnaði hún til fjölgreiðslusamninga eftir því sem skuldir hennar undu upp á sig. Hún stofnaði einnig greiðslukortareikning fyrir þáverandi sambýlismann sinn án þess að fyrir lægi umsókn hans og notaði hún aðgangsorð samstarfsmanns til að hækka yfirdráttarheimild á tékkareikningi sambýlismannsins. Sex mánuðir refsingar konunnar eru skilorðsbundnir í tvö ár, en dómurinn segir það til komið af óútskýrðum drætti á rannsókn málsins. Kæra var lögð fram 21. júlí 2003 og skýrsla tekin af konunni í ágústlok sama ár, þar sem hún játaði brot sitt. Skýrsla var svo ekki tekin aftur fyrr en 12. apríl á þessu ári og ákæra gefin út 20. apríl. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×