Innlent

Töldu sig þekkja mann í löggubíl

Lögreglan í Hafnarfirði handtók rétt fyrir hádegi tvo karlmenn og eina konu í húsi í Reykjavík sem eru grunuð um að hafa í félagi við tvo aðra karla, sem handteknir voru í nótt, ráðist á óeinkennisklædda lögreglumenn og stórskemmt ómerkta lögreglubifreið. Lögreglubifreiðinni var ekið út í kant á Hverfisgötu til að hleypa bifreið, sem ekið hafði verið á eftir bíl lögreglumannanna um skeið, fram hjá. Við það stöðvaði ökumaður bílsins sína bifreið og réðust þeir sem í bílnum voru skyndilega á bíl lögreglumannanna. Hliðarrúður í lögreglubílnum báðum megin voru brotnar og skemmdir unnar á vélarhlif og víðar. Samkvæmt lögreglunni er búið að yfirheyra alla aðila málsins og hefur ekkert komið fram við yfirheyrslur eða í tengslum við rannsókn þess sem bendir til þess að árásin hafi beinst eða átt að beinast gegn lögreglu eða lögreglumönnum. Tildrögin munu hins vegar hafa verið þau að árásarmenn töldu sig þekkja mann í bifreið lögreglu sem þeir áttu óuppgerðar sakir við og voru skemmdirnar á bifreiðinni unnar af þeim sökum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×