Innlent

Fellir úrskurð ráðherra úr gildi

Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi úrskurð dómsmálaráðherra, sem synjað hafði Lilju Sæmundsdóttir um að ættleiða barn frá Kína á þeim forsendum að hún væri of þung. Lilja, sem er 48 ára, er með kennaramenntun og sérkennaramenntun og sótti um að ættleiða barn frá Kína fyrir tveimur árum. Héraðsdómur taldi undirbúning dómsmálaráðuneytisins á málinu ófullnægjandi og röksemdir fyrir þeirri niðurstöðu að neita Lilju um að ættleiða barnið þóttu ekki byggðar á viðeigandi upplýsingum. Segir í dóminum að vegna þessara ágalla á málsmeðferð dómsmálaráðuneytisins beri að fella hinn umdeilda úrskurð þess úr gildi. Lilja krafðist þess einnig að viðurkennt yrði með dómi að hún uppfyllti öll skilyrði til að hljóta forsamþykki til að ættleiða barn frá útlöndum. Krafan þótti ekki þess efnis að undir dóminn heyrði að leysa úr henni og var henni því vísað frá dómi. Íslenska ríkinu var gert að greiða Lilju 600 þúsund krónur í málskostnað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×