Innlent

Fimm ákærðir vegna banaslyss

Ríkissaksóknari hefur ákært fimm menn fyrir vanrækslu þegar banaslys varð við Kárahnjúka í mars á síðasta ári. Málið var þingfest í Héraðsdómi Austurlands í morgun. Þeir sem eru ákærðir eru framkvæmdastjóri Arnarfells, yfirmaður öryggismála hjá Impregilo, tveir fulltrúar eftirlitsfyrirtækis á vegum Landsvirkjunar. Ekki hefur tekist að birta fimmta manninum ákæruna þar sem hann er erlendis. Framkvæmdastjóri Arnarfells mætti ekki við þingfestinguna en þeir þrír sem mættu neituðu allir sök. Framkvæmdastjóra Arnarfells er gefið að sök að hafa vanrækt skyldu til að bregðast við bráðri hættu á heilsutjóni eða vinnuslysi aðfararnótt 15. mars á síðasta ári með því að senda tvo starfsmenn sína til vinnu við borun i Hafrahvammsgljúfri á stíflusvæði Kárahnjúkavirkjunar, þótt honum væri kunnugt um að bráð hætta hefði skapast á grjóthruni vegna hækkandi hita dagana á undan og að viðeigandi öryggisráðstafanir hafi ekki verið gerðar. Starfsmennirnir tveir voru að merkja fyrir borun þegar tæplega 40 kílóa hnullungur losnaði og lenti á öðrum þeirra þannig að hann lést. Hinum fjórum er gefið að sök að hafa vanrækt að vinna áætlun um öryggi eða sérstakt áhættumat vegna vinnu við virkjunarsvæðið þrátt fyrir ítrekuð fyrirmæli Vinnueftirlits ríksins. Þá eru þeir sakaðir um að hafa vanrækt að bregðast við bráðri hættu á vinnuslysum með því að gera ekki viðeigandi ráðstafanir til að tryggja öryggi starfsmanna vegna hættu á grjóthruni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×