Sport

Síðasti leikur Guðmundar

Íslenska landsliðið í handknattleik mætir í kvöld Svíum í Kaplakrika í Hafnarfirði en leikurinn er liður í undirbúningi beggja liða fyrir undankeppni heimsmeistaramótsins. Þar mæta Íslendingar Hvít-Rússum en Svíar leika gegn Pólverjum. Guðmundur Hrafnkelsson, sem leikið hefur 402 landsleiki fyrir Ísland leikur í kvöld sinn síðasta landsleik. Guðmundur lék sinn fyrsta leik með íslenska landsliðinu gegn Sovétríkjunum á Friðarleikunum í Moskvu árið 1986. Margir af þeim leikmönnum sem skipa íslenska landsliðið í dag voru þá á leikskólaaldri, en Guðmundur er annar leikjahæsti handknattleiksmaður heims. Aðeins Jackson Richardson, leikmaður Frakka, hefur leikið fleiri landsleiki en Guðmundur. Landsleikur Íslendinga og Svía hefst í Kaplakrika klukkan 19.40 en Íslendingar unnu síðast sigur á Svíum á móti í Belgíu fyrir þremur árum. Svíar mæta hingað til lands með sitt sterkasta lið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×