Innlent

Sparkað í vitni

Sparkað var í Reyni Traustason, fyrrverandi ritstjóra DV, þegar hann kom í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær til þess að bera vitni í máli sem höfðað er gegn Jóni Trausta Lútherssyni, fyrir ógnanir og líkamsmeiðingar sem áttu sér stað í höfuðstöðvum DV í Skaftahlíð í fyrra. Reynir segir kverkatakið sem tekið var á honum í æsingnum á vinnustaðnum, ekki vera aðalatriði málsins. "Það skiptir mestu máli að geta búið við öruggt og ógnunarlaust umhverfi í vinnunni og annars staðar," sagði Reynir. "Þessi árás á mig í héraðsdómi sýnir einfaldlega eðli þessara manna, sem eru að ögra og ógna. Það er ekki hægt að sætta sig við það að innan veggja Héraðsdóms Reykjavíkur geti menn óáreittir gengið í skrokk á öðrum," sagði Reynir. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Jóns Trausta, segir öryggisgæslu í héraðsdómi ekki ábótavant, þrátt fyrir þetta atvik í gær. "Ég hef nú starfað þarna lengi og hef aldrei orðið vitni að neinu, og veit ekki til þess að þarna hafi komið upp vandamál fram að þessu". Sveinn bendir einnig á að ef menn eru taldir hættulegir, eða séu í gæsluvarðhaldi, þá séu þeir í vörslu fangavarða. Dómverðir eru einnig starfandi í húsinu og að mati Sveins Andra sinna þeir starfi sínu vel og halda uppi hæfilegri löggæslu í húsinu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×