Innlent

Sektaður fyrir að veifa riffli

Maður á þrítugsaldri, sem gekk um Akureyrarbæ og veifaði veiðiriffli í júlí í fyrra með þeim afleiðingum að sérsveitin var kölluð út, hefur verið dæmdur í 30 þúsund króna sekt í Héraðsdómi Norðurlands fyrir brot á vopnalögum. Mikill viðbúnaður var í bænum meðan maðurinn gekk um með riffilinn en lögregla taldi hann hafa hleypt af skotum. Það reyndist við athugun ekki vera rétt því í ljós kom að hann virtist ekki hafa kunnað að setja riffilinn saman og ómögulegt var að setja í hann skot. Að sögn Eyþórs Þorbergssonar, sýslufulltrúa á Akureyri, var hins vegar verið að skjóta fugla á flugvellinum á sama tíma og hvellirnir þaðan rugluðu menn í ríminu. Lögreglan vissi að maðurinn ætlaði inn í hús við Aðalstræti að gera upp sakir við mann sem honum hafði sinnast við fyrr um daginn og lokaði götunni. Sérsveitarmenn voru fengnir til að aðstoða lögreglu við að handtaka manninn en hann gafst upp eftir að hafa brotist inn í mannlaust hús við götuna. Maðurinn var dæmdur í 30 þúsund króna sekt vegna brota á vopnalögum þar sem hann gekk um með skotvopn á almannafæri en þetta er sjöundi dómurinn sem maðurinn fær. Hann hefur áður hlotið sex dóma fyrir fíkniefna- og umferðarlagabrot.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×