Innlent

Eitt skipanna reyndist draugaskip

Eitt af sjóræningjaskipunum sjö á karfaslóð við lögsögumörkin á Reykjaneshrygg er draugaskip; það er ekki að finna í viðurkenndum skipaskrám. Öll sigla þau hins vegar undir fána Dominíku í Karíbahafinu. Kristján Þ. Jónsson, yfirmaður gæsluframkvæmda, segir verið að kortleggja sjóræningjaveiðarnar og verslun með afla. Hann segir að Landhelgisgæslan geti ekki haft afskipti af skipunum þar sem þau séu á alþjóðlegu hafsvæði en þau séu samt að brjóta reglur Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar með því að vera þarna að veiðum, þau hafi hvorki kvóta né leyfi á svæðinu. Landhelgisgæslan staðfesti að skipin séu á veiðum og staðsetji þau og þá reyni hún að hafa samband við skipin en þau hafi hingað til ekki viljað svara kalli Gæslunnar. Í kjölfarið séu atvikin tilkynnt til Norðaustur-Atlantsfiskveiðihafsnefndarinnar í London. Hún eigi að gera skipunum erfitt fyrir að losa sig við aflann. Í eftirlitsflugi Landhelgisgæslunnar í gær sáust sextíu erlend skip að veiðum á alþjóðlegu hafssvæði rétt utan við 200 mílna mörkin. Öll eiga þau aðild að samstarfi sem heyrir undir Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndina, NEAFC, nema sjóræningjaskipin sjö. Á ljósmyndum, sem áhöfn gæsluflugvélarinnar tók í gær og Landhelgisgæslan birtir á heimasíðu sinni, má til dæmis sjá flutningaskipið Sunny Jane frá Belís taka við fiski frá einu af þessum sjóræningjatogaranum Okhotino. Í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar er þessa stundina verið að vinna nauðsynlega pappírsvinnu og rannsókn því samfara að tilkynna um brotin réttmætum aðilum í því augnamiði að koma í veg fyrir veiðarnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×