Innlent

Sjóræningjaskip á Reykjaneshrygg

Flugvél Landhelgisgæslunnar sá sjö sjóræningjaskip að veiðum á karfaslóð á Reykjaneshrygg í dag. Skipin eru skráð á smáeyju í Karabíska hafinu. Um 60 erlend skip eru að karfaveiðum á Reykjaneshrygg auk nokkurra íslenskra skipa. Skipin eru að veiðum rétt við 200 sjómílna lögsögumörkin suðvestur af Reykjanesi. Sjö skip af þessum sextíu eru svokölluð sjóræningjaskip, þ.e. þau hafa ekki leyfi til veiða á fiskveiðistjórnunarsvæði Norður-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar. Að sögn Kristjáns Þ. Jónssonar, yfirmanns gæsluframkvæmda Landhelgisgæslunnar, uppgötvuðust sjóræningjaskipin þegar farið var yfir nöfn þeirra skipa sem voru að veiðum á þessum slóðum. Við þá athugun kom í ljós að skipin sjö höfðu ekki kvóta til að veiða á þessum slóðum. Sjóræningjaskipin sjö eru öll skráð á smáeyjunni Dominika í Karíbahafinu. Að sögn Kristjáns er það nokkuð algengt að sjóræningjaskip sjáist á þessum slóðum og að reynt verði að hafa uppi á skipunum þegar þau landa í höfnum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×