Sport

Róbert og Sturla misstu af titli

Kolding tryggði sér danska meistaratitilinn í gær með öruggum sigri á Aarhus, 31-27, í oddaleik. Kolding var mikið mun betra liðið í leiknum og svo gott sem tryggði sér sigur í leiknum í fyrri hálfleik en hálfleikstölur voru 16-8. Róbert Gunnarsson skoraði níu mörk fyrir Aarhus í leiknum og þar af eitt úr víti. Hann fiskaði einnig fjögur víti. Róbert var slakur framan af leik og komst ekki í gang fyrr en leikurinn var svo gott sem búinn enda skoraði hann átta marka sinna í síðari hálfleik. Sturla Ásgeirsson komst aldrei í gang og skoraði aðeins eitt mark. Hjá Kolding fór norski markvörðurinn Sindre Vahlstadt á kostum en hann varði 27 skot og þar af 17 í fyrri hálfleik. Miðjumaðurinn Sebastian Seifert var einnig stórkostlegur með fjögur mörk og tólf stoðsendingar en þetta var annar leikurinn í röð sem hann gefur tólf stoðsendingar. "Þetta byrjaði ágætlega en svo gerðum við alveg í buxurnar," sagði Róbert við Fréttablaðið eftir leikinn. "Það vantaði alla ógnun og hraða í spilið. Við töpuðum fyrir betra liði, það verður bara að segjast eins og er. Engu að síður erum við mjög sáttur við tímabilið enda komumst við í Meistaradeild sem er árangur sem enginn átti von á."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×