Innlent

Dró sér fé af kirkjureikningum

Fyrrverandi afleysingastarfsmaður íslensku kirkjunnar í Ósló hefur viðurkennt að hafa dregið sér umtalsvert fé af reikningum safnaðarins. Hann segir ástæðuna vera spilafíkn. Tveir starfsmenn safnaðarins hafa sagt af sér vegna málsins. Í ljós hefur komið að íslenskur afleysingastarfsmaður íslenska kirkjusafnaðarins í Ósló, sem ráðinn var tímabundið vegna veikindaforfalla í haust, dró sér 560 þúsund norskar krónur, eða tæplega 6 milljónir íslenskar, af reikningum safnaðarins á þriggja mánaða tímabili. Starfsmaðurinn hafði krítarkort frá söfnuðinum og aðgang að reikningum hans á Netinu þar sem það var hluti af starfi hans að greiða reikninga sem bárust á skrifstofu safnaðarins. Hann hafði einungis haft aðgang að reikningunum í örfáa daga þegar hann hóf að draga sér fé. Fjárdrátturinn komst upp þegar bókhaldfyrirtækið, sem sér um bókhald fyrir söfnuðinn, gerði athugasemdir við að sér bærust hvorki reikningar né fylgiskjöl. Á aukafundi þar sem fjárdrátturinn var eina málið á dagsskrá sagði formaður safnaðarins þegar af sér störfum.  Málinu var vísað til lögreglunnar í Ósló og í kjölfar þess sagði gjaldkeri safnaðarins einnig af sér störfum. Í yfirheyrslum hjá lögreglunni sagði starfmaðurinn að bágur fjárhagur, auk skulda vegna spilafíknar væru ástæður þess að hann hóf að draga sér fé.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×