Innlent

Þrjú af fjórum undir lögaldri

Stúlkurnar sem stöðvaðar voru í Leifsstöð í gær voru allar undir lögaldri. Karlmaður sem stýrði för þeirra og ungs drengs var í dag úrskurðaður í viku gæsluvarðhald. Hann er frá Singapúr en ungmennin frá Kína. Talstöðin greindi frá þessu. Samkvæmt upplýsingum fulltrúa sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli voru þrjú af fjórum ungmennum sem stöðvuð voru af tollvörðum á Keflavíkurflugvelli í gær undir lögaldri. Karlmaður á fimmtugsaldri sem ferðaðist með ungmennunum, og er frá Singapúr, var í dag úrskurðaður í gæsluvarðhald til 27. maí vegna gruns um að ætla að smygla ungmennunum til Bandaríkjanna. Eyjólfur Kristjánsson, fylltrúi sýlsumanns, sagði í samtali við Talstöðina að málið hefði strax í gær verið litið alvarlegum augum enda benti margt til þess að um skipulagðan ólöglegan flutning á fólki milli landa væri að ræða. Fólkið er talið hafa verið með fölsuð vegabréf. "Við komumst að því þegar varið var að grennslast fyrir um málið að stúlkurnar þrjár sem voru í för með manninum eru allar undir lögaldri," sagði Eyjólfur en stúlkurnar eru taldar vera á aldrinum 15-16 ára. Þær eru allar frá Kína, eins og ungur drengur sem var í för með manninum sem nú hefur verið hnepptur í gæsluvarðhald. Eyjólfur segir hann þó vera yfir lögaldri. Ekki fengust upplýsingar um hver tilgangur ferðar fólksins var en rannsókn málsins í er í fullum gangi. Á meðan verða stúlkurnar og drengurinn í umsjá landamæradeildar lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×