Innlent

Buðu bara fjölskyldu áfallahjálp

Matargestum í Hlíðarhjalla í Kópavogi á sunnudaginn var ekki boðin áfallahjálp ef undanskilin er fjölskylda hins látna. Alls voru sautján matargestir þar þegar einn gestanna snöggreiddist að sögn vitna og myrti Vu Van Phong með eggvopni sem að sögn lögreglu var líklega tekið úr eldhúsi í íbúðinni. Friðrik Smári Björgvinsson, talsmaður lögreglunnar í Kópavogi, tjáði blaðamanni að málið væri enn í rannsókn og verið væri að fara yfir þau sönnunargögn sem fyrir liggja. Phu Tien Ngueyn sem grunaður er um að hafa orðið Vu Van Phong að bana hefur enn ekki játað verknaðinn en mörg vitni voru að ódæðinu og rannsóknin því komin vel á veg. Vu Van Phong lést meðan beðið var eftir sjúkrabíl. Spurður hvort lögreglan hefði gerst sek um seinagang svaraði Friðrik Smári því til að innan við tvær mínútur hefðu liðið frá því að lögreglu barst tilkynning þar til hún var mætt á staðinn. Sjálfur efast hann um að Neyðarlínan hafi dregið nokkuð að láta lögreglu vita. Neyðarlínan neitaði að upplýsa hvenær símtalið barst og hvenær lögregla var látin vita.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×