Erlent

Gríðarleg aukning á árásum

Gríðarleg aukning hefur orðið á sprengjuárásum í Írak undangengnar tvær vikur, eða allt frá því tilkynnt var um nýja ríkisstjórn landsins. Ríflega sjötíu manns létu lífið í að minnsta kosti fjórum sjálfsmorðsárásum í dag. Ekkert lát er á sprengjutilræðum í Írak: sjálfsmorðssprengjum, bílasprengjum og alls konar árásum, mannránum og banatilræðum og hafa fjögur hundruð Írakar látið lífið á aðeins hálfum mánuði. Flestir féllu í sjálfsmorðsárás í heimabæ Saddams Husseins, Tíkrit, í dag þegar árásarmaður sprengdi bíl í loft upp inni í hópi verkamanna, aðallega sjíta. Minnihluti súnníta í Írak er ekki ýkja hrifin af því að sjítar séu nú komnir til valda í landinu og öfgamenn í þeirra hópi hafa reynt að efna til borgarastyrjaldar á milli þessara tveggja hópa. Yfirvöld í Tíkrit reyna nú að stemma stigu við bílasjálfsmorðsárásum eins og þeirri í morgun og hafa brugðið á það ráð að banna fólki að ferðast einsamalt í bíl. Þá ríkir ringulreið í Anbar-héraði við landamæri Sýrlands en ríkisstjóra héraðsins var rænt í gær. Mannræningjarnir krefjast þess að Bandaríkjaher hætti áhlaupi sínu á stöðvar uppreisnarmanna í héraðinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×