Innlent

Dómar birtast á netinu

Í sumar eða undir haust er fyrirhugað að dómstólar landsins hefji allir birtingu dóma á netinu. Hingað til hefur Héraðsdómur Norðurlands eystra einn birt dóma með þeim hætti. "Þetta hefur lengi staðið til," segir Elín Sigrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Dómstólaráðs, en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær nýr vefur fer í loftið. Hún segir að þótt birtingu á netinu fylgi einhver vinnusparnaður í að svara þarf færri fyrirspurnum þá fylgi þessu einnig nokkurt umstang. "Það þarf að taka út nöfn og annað slíkt. Þetta er nákvæmnisvinna og fjöldi dóma gríðarlegur. Svo setjum við líka inn lýsingu á dómnum og leitarorð, þannig að það er nokkur vinna við þetta." Elín segir reglur settar um hvaða dómar fari í almenna birtingu á netinu, en undanskildir verði ákveðnir málaflokkar. "Það eru mál sem snerta bráðabirgðaforsjá, opinber skipti og fleira. Yfirleitt svona einkaréttarleg mál sem varða viðkvæma persónulega hagsmuni og opinber mál þar sem ákært er fyrir kynferðisafbrot og svo mál þar sem ákært er fyrir yngri en 18 ára." Þá verða einnig birtar á nýja vefnum upplýsingar um dómstólana og dagskrá þeirra.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×