Innlent

Gasbyssubóndi ber af sér sakir

Flateyjarbóndinn Hafsteinn Guðmundsson, sem átti gasbyssu sem fannst við meint arnarhreiður í Borgarhólma í Hergilseyjarlöndum nú í apríl, heldur því fram að ernir hafi aldrei orpið í Borgarhólma og að gasbyssuhvellirnir hafi einungis verið til þess að fæla geldfugla frá æðarvarpi í hólmanum. Hann vill meina að eftirlitsflug Kristins Hauks Skarphéðinssonar og félaga yfir arnarvörp valdi engu minni skaða þegar fuglar fljúga upp við flugvélaniðinn. Þá meinar Hafsteinn að hann hafi verið í fullum rétti að verja sinn atvinnuveg, æðarvarpið. Kristinn Haukur vill hins vegar meina að Hafsteinn hafi einmitt unnið að því meðvitað að koma í veg fyrir að ernir geti komið upp ungum á þessum slóðum og að brotavilji hans sé einbeittur. Um þessi vinnubrögð Hafsteins segir Kristinn: "Það er rótgróin óvild í garð arnarins á þessu svæði og Hafsteinn er verðugur fulltrúi þeirra sem standa með annan fótinn í nítjándu öldinni og hinn í þeirri átjándu." Sýslumaðurinn á Patreksfirði á eftir að taka afstöðu til þess hvort gefin verði út ákæra á hendur Hafsteini.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×