Innlent

Telur ÁTVR brjóta áfengislög

Hróbjartur Jónatansson hæstaréttarlögmaður telur að séu niðurstöður nýfallins dóms Héraðsdóms Reykjavíkur um útstillingu og umfjöllun um tóbaks heimfærðar upp á áfengislöggjöfina megi draga þá ályktun að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins brjóti þá löggjöf. "Í 20. grein áfengislaga segir að hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum tegundum séu bannaðar. Þá segir að með auglýsingum sé átt við hvers konar tilkynningar til almennings vegna markaðssetningar þar sem sýndar eru í máli eða myndum áfengistegundir eða atriði tengd áfengisneyslu, svo sem áfengisvöruheiti eða auðkenni, eftirlíkingar af áfengisvarningi, spjöld eða annar svipaður búnaður til útstillingar, dreifing prentaðs máls, vörusýnishora og þess háttar." Hróbjartur bendir á að ÁTVR auglýsi um þessar mundir að fólk geti aflað sér upplýsinga um víntegundir í Vínblaðinu, sem fáist í hverri vínbúð og sé þannig í almennri dreifingu. "Hið opinbera kýs þarna að túlka sambærilega löggjöf með mismunandi hætti," segir hann og veltir fyrir sér hvort jafnræðis sé gætt, en hann flutti mál tóbaksverslunarinnar Bjarkar og tóbaksframleiðandans JT International fyrir Héraðsdómi 27. apríl. Þar var tekist á um tóbakslöggjöfina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×