Innlent

Kanna skaðabótamál í Símamáli

Lögmenn Símans eru nú að kanna skaðabótamál gegn fjórmenningunum í Landssímamálinu svokallaða. Hægt verður að viðhalda skaðabótakröfum á þá í áratugi verði þær ekki greiddar. Hæstiréttur staðfesti sekt þeirra þriggja sem áfrýjuðu dómi héraðsdóms vegna fjárdráttarins hjá Landssímanum en mildaði refsinguna yfir þeim öllum. Þegar héraðsdómur gekk í málinu í júní síðastliðnum í þeim fjórum sem dæmdir voru gaf Síminn út yfirlýsingu um að með þeirri niðurstöðu væri lagður grundvöllur að bótaskyldu fjórmenninganna gagnvart Símanum og að Síminn myndi leita viðeigandi úrræða gagnvart fjórmenningunum. Bótakröfu Símans upp á 246 milljónir króna auk kostnaðar var vísað frá héraðsdómi þar sem ástæða þótti til að fjalla sérstaklega um hana. Að sögn Evu Magnúsdóttur, upplýsingafulltrúa Símans, eru lögfræðingar fyrirtækisins að fara yfir málið. Þær leiðir sem eru Símanum færar í stöðunni eru annars vegar að gera kröfu í þrotabú viðkomandi ef þeir eru gjaldþrota eða höfða einkamál. Ef viðkomandi er gjaldþrota er hægt að gera kröfur í þrotabú hans og ef eignir búsins hrökkva ekki fyrir kröfum er hægt að viðhalda kröfunum með því að krefjast gjaldþrots skuldamanns á ný áður en fyrri gjaldþrotaúrskurður fyrnist. Ef ekki er um gjaldþrota einstakling að ræða getur Síminn höfðað einkamál til staðfestingar rétti sínum til bóta. Ef dómur staðfestir það er hægt að gera fjárnám hjá viðkomandi og árangurslaust fjárnám ef engar eignir eru. Í framhaldi af því er síðan hægt að krefjast gjaldþrotaskipta og viðhalda gjaldþrotinu endalaust ef vilji er fyrir hendi þar til skuldin er að fullu greidd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×