Erlent

Rifist um lykilráðuneyti

Ný ríkisstjórn hefur verið mynduð í Írak eftir þriggja mánaða þref. Enn er þó rifist um nokkur lykilráðuneyti. Ibrahim Al Jaafari, forsætisráðherra Íraks, tilkynnti í gærkvöldi að hann hefði afhent forsetaráði landsins lista með væntanlegri ríkisstjórn landsins, sem verður væntanlega fyrsta lýðræðislega ríkisstjórn landsins í meira en hálfa öld. Þingið greiddi í morgun atkvæði með nýju stjórninni með yfirgnæfandi meirihluta en enn er þó deilt um skipan nokkurra lykilráðherraembætta: olíumálaráðherra, raforkuráðherra, iðnaðarráðherra og mannréttindaráðherra hafa ekki enn verið tilnefndir og sömu sögu er að segja af embættum tveggja aðstoðarforsætisráðherra. Þykir það sýna glöggt hversu djúpstæður ágreiningur er um nýju stjórnina. Þar verður enga félaga í flokki Iyads Allawis, núverandi bráðabirgðaforsætisráðherra, að finna en hann stormaði út af fundi og hætti þátttöku í myndun nýju stjórnarinnar fyrir skömmu þegar honum þótti ljóst að flokkurinn fengi ekki þau ráðherraembætti sem hann sóttist eftir. Ærin verkefni bíða nýju stjórnarinnar: hún þarf að hafa yfirumsjón með baráttunni við uppreisnar- og hryðjuverkamenn, sem og takast á við skipulagða glæpastarfsemi. Stjórnin verður að semja nýja stjórnarskrá í samstarfi við þingið en sá starfi hefur gengið illa og þykir víst að sótt verði um frest til að leggja stjórnarskrárfrumvarpið fram til þjóðaratkvæðagreiðslu. Halda á nýjar þingkosningar í Írak í desember næstkomandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×