Innlent

Úrræði vegna skilorðs endurskoðuð

Formaður allsherjarnefndar Alþingis segir að úrræði vegna afbrotamanna á skilorði verði skoðuð þegar lög um meðferð opinberra mála verða endurskoðuð í haust. Alþingi breytti í fyrra almennum hegningarlögum þannig að skjótvirkari og skilvirkari úrræði fengust gagnvart afbrotamönnum sem brjóta af sér í reynslulausn. Að undanförnu hefur töluvert verið fjallað um ofbeldismenn sem hlotið hafa skilorðsbundna dóma og hafa haldið áfram ofbeldinu en þeim sleppt strax að loknum yfirheyrslum. Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar Alþingis, segir að ekki hafi staðið til að taka á þeim hópi þegar hegningarlögunum sem tóku á brotum í reynslulausn var breytt. Tilgangurinn með frumvarpinu hafi eingöngu verið sá að taka á rofi á almennu skilyrði reynslulausnar. Bjarni segir að skilyrðin sem voru sett inn í hegningarlögin í fyrra mjög þröng. Þau eigi aðeins við þegar þung refsing liggur við og í mjög alvarlegum brotum á reynslulausn og þá aðeins þegar dómstólar hafa fengið viðkomandi mál til meðferðar. Hann segir mál af þessu tagi ekki einföld og minnir á að mannréttindasjónarmið takmarki úrræði. Hann bendir hins vegar á að það standi fyrir dyrum að endurskoða lög um meðferð opinberra mála og hann telji að við þær aðstæður sé full ástæða til að taka úrræði vegna afbrotamanna á skilorði til skoðunar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×