Innlent

Angi af miklu stærra máli

"Menn verða að spyrja sig hvers konar fjármálaumhverfi á að ríkja hér í næstu framtíð," segir Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja, vegna gagnrýni Indriða H. Þorlákssonar, ríkisskattstjóra, um tregðu bankastofnanna að veita skattayfirvöldum upplýsingar um viðskiptavini sína. Guðjón bendir á að eigi bankar að opna allar bækur fyrir skattayfirvöldum eins og Indriði gerir kröfu um sé borin von að hér dafni alþjóðlegt fjármálaumhverfi eins og vonir margra standa til. "Þessi ósk Indriða er angi af miklu stærra máli. Ef við viljum vera samkeppnishæfir við lönd í kringum okkur á borð við Lúxemborg og Sviss þá verður að vera hér lágmarks bankaleynd. Skattstjóri getur óskað upplýsinga um einstaka viðskiptamenn sem grunur leikur á að telji ekki rétt fram en að slíkt gangi yfir allan almenning er of langt gengið." Í leiðara Tíundar, fréttablaðs Ríkisskattstjóri, segir Indriði bankaleynd ekki vera málefnaleg rök fyrir því að meina skattayfirvöldum aðgang að hlutabréfaupplýsingum almennings og að tregða bankastofnanna við að verða við þeim óskum gagnist þeim einum sem vilja hafa rangt við. Ríkisskattstjóri svaraði ekki skilaboðum blaðamanns.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×