Erlent

23 þúsund borgarar taldir af

Talið er að fleiri en þrjátíu þúsund manns, þar af 23 þúsund óbreyttir írakskir borgarar, hafi látið lífið í átökum í Írak frá því Bandaríkjamenn og Bretar gerðu innrás í landið fyrir rúmum tveimur árum. Enn hækkar tala fallinna í Írak. Að minnsta kosti sex létust og þrjátíu særðust í tveimur sjálfsmorðsprengingum sem gerðar voru í námunda við lögregluskóla í bænum Tíkrit í morgun. Fyrri sprengjan sprakk þegar árásarmaðurinn ók bifreið að byggingunni. Fjöldi fólks þusti að til að aðstoða særða þegar önnur bifreið kom aðvífandi og önnur sprengja reið af. Á sama tíma gerðu uppreisnarmenn sprengjuárás á bílalest breska hersins í bænum Amrah þar sem írakskur karlmaður, sem ók bifreið í námunda við sprenginguna, særðist auk konu og barns sem voru með honum í bílnum. Hingað til hefur Amrah talist til friðsæls svæðis en þetta var önnur árásin sem þar er gerð á einum sólarhring. Ekkert lát er á ofbeldisverkum uppreisnarmanna í Írak. Í gær létust þrettán Írakar og 39 særðust í árásum sem gerðar voru í og við höfuðborg landsins, Bagdad. Ljóst er að leiðin til lýðræðis í Írak reynist dýrkeypt. Frá því í mars árið 2003 hafa 1733 hermenn bandamanna fallið. Talið er að á milli fimm og sex þúsund írakskir her- og lögreglumenn hafi látist. Fjöldi fallinna írakskra borgara er talinn vera allt að 23 þúsund.  



Fleiri fréttir

Sjá meira


×