Innlent

Fjölskyldan flúin af heimilinu

Móðir sautján ára pilts sem varð fyrir skotárás á Vaðlaheiði um síðustu helgi segir skelfilegt að hugsa til þess að árásarmönnunum hafi verið sleppt úr haldi þrátt fyrir að þeir hafi verið á skilorði þegar árásin var framin. Öll fjölskyldan sé dauðhrædd, hafi yfirgefið heimili sitt og ætli ekki að snúa þangað aftur fyrr en búið sé að koma mönnunum á bak við lás og slá. Móðirin, sem búsett er á Akureyri, segir sautján ára son sinn hafa glímt við fíkniefnadjöfulinn frá tólf ára aldri. Hann lenti í mjög slæmum félagsskap en móðirin segir hann hafa viðurkennt að honum hafi fundist þetta „töff“ til að byrja með. Síðasta laugardag óku tveir menn með piltinn upp á Vaðlaheiði, skipuðu honum að afklæðast og skutu ellefu skotum á hann með loftbyssu. Fjarlægja þurfti skot úr líkama hans með skurðaðgerð. Árásin, sem sögð er tengjast fíkniefnauppgjöri, hefur vakið óhug í þjóðfélaginu öllu en árasarmönnunum hefur verið sleppt úr haldi. Móðirin segir að henni líði hræðilega vitandi af mönnunum lausum, m.a. með hliðsjón af því að hún eigi tvö yngri börn. „Þessir menn eru á skilorði. Þeir eru teknir höndum, þeir játa og þá er þeim sleppt. Auðvitað eru allir skíthræddir,“ segir móðir drengsins og furðar sig á réttarkerfi sem sem virkar svona. Fjölskyldan er nú flúin af heimili sínu. Móðirin segir ástandið bara hafa versnað og nú sé svo komið að hún hafi útilokað son sinn, áttað sig á því að það sé ekkert meira sem hún geti gert fyrir hann í bili. Það hafi verið afskaplega erfið ákvörðun. „Maður getur ekki misst vonina. Það er það eina sem verður að halda í - að einhvern tíma taki þetta enda,“ segir móðir drengsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×