Innlent

Rannsókn skotárásar langt komin

Lögreglan á Akureyri er langt komin með rannsókn skotárásar sem sautján ára piltur varð fyrir skammt frá Akureyri á laugardag. Tveir voru handteknir vegna málsins, annar játaði fljótlega og var sleppt úr haldi en hinn var úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald. Fjarlægja þurfit byssukúlur með skurðaðgerð úr lærvöðva og hendi piltsins á sunnudag. Lögreglan frétti frá sjúkrahúsinu að eitthvað óeðlilegt hefði átt sér stað en það var ekki fyrr en í hádeginu í gær sem pilturinn kærði árásina sem gerð var með loftskammbyssu. Mennirnir fengu piltinn upp í bíl og keyrðu með hann norður gamla Vaðlaheiðarveginn þar sem þeir skipuðu honum út og skutu nokkrum skotum á hann. Þeir létu ekki þar við sitja heldur létu piltinn afklæðast og skutu á hann sex skotum til viðbótar sem virðist aðeins hafa verið til þess fallið að niðurlægja piltinn enn frekar. Daníel Snorrason, rannsóknarlögreglumaður á Akureyri, segir ljóst að ein og sama byssan hafi verið notuð og að hún sé líklega ólögleg. Hann segir að með því að rannsaka málið með það að leiðarljósi að það tengdist fíkniefnum tókst lögreglunni að þrengja hringinn sem leiddi til þess að á mánudag voru tveir menn handteknir sem talið var að tengdust málinu. Mennirnir sem voru handteknir eru rúmlega tvítugir og hafa báðir komið við sögu lögreglunnar vegna fíkniefnamála. Annar þeirra játaði að hafa skotið úr byssunni en skotin voru að minnsta kosti ellefu. Yfirheyrslum yfir hinum manninum er nýlokið en hann er grunaður um fíkniefnaþátt málsins. Hann hefur þegar verið úrskurðaður í fimm daga gæsluvarðhald en líkur er á að honum verði sleppt í kvöld ef játning fæst. Daníel hefur áhyggjur af auknum fíkniefnabrotum og ofbeldisverkum í hans umdæmi. Hann segir að atvikið sé litið mjög alvarlegum augum því aðförin að fórnarlambinu hefði getað orðið lífshættuleg.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×