Erlent

Sameining allra kristinna manna

Fyrsta messa Josephs Ratzingers eftir að hann var kjörinn páfi fór fram í morgun. Þar talaði hann m.a. um að reyna að sameina alla kristna menn veraldar. Messan var haldin í Sixtínsku kapellunni í Róm og hana sátu allir kardínálarnir 114 sem í gær kusu Ratzinger til páfadóms.

Ratzinger var kjörinn páfi í fjórðu umferð atkvæðagreiðslunnar. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem nokkrir þýskir kardínálar héldu skömmu eftir að valið á Ratzinger hafði verið gert heyrinkunnugt í gær. Nokkur vafi hafði ríkt um hvort þurft hefði fjórar eða fimm umferðir en þýsku kardínálarnir upplýstu þetta í gær. Þrátt fyrir ströng fyrirmæli um að segja ekki á nokkurn hátt frá páfakjörinu í Sixtínsku kapellunni fullyrtu kardínálarnir þýsku einnig að Ratzinger, eða Benedikt XVI eins og hann kýs að kalla sig, hafi orðið fyrir valinu án nokkurs áróðurs eða sérstakrar baráttu á bak við tjöldin.

Kaþólikkar um gjörvalla heimsbyggðina fögnuðu því í gær að tekist hefði að kjósa nýjan páfa á svo skömmum tíma og raun bar vitni og kaþólskir söfnuðir hvaðanæva að sendu í gær hamingjuóskir til Vatíkansins. Þá hafa þjóðarleiðtogar um allan heim sent nýjum páfa óskir um velfarnað í starfi. Umbótasinnaðir kaþólikkar víða að hafa hins vegar látið í ljós óánægju með valið á Ratzinger sem þykir afar íhaldssamur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×