Innlent

Gjörbreytt starf með hitamyndavél

Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja tóku í notkun í dag sérstaka hitamyndavél sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Einnig var tekið í notkun nýtt æfingahúsnæði sem er byggt úr gámaeiningum. Myndavélin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og Sigmundur Eyþórsson, slökkviliðsstjóri í Reykjanesbæ, segir vélina skipta miklu máli í störfum slökkviliðsins. Myndavélin var prófuð í nýju æfingahúnæði sem Brunavarnir Suðurnesja tóku í gagnið í dag. Sigmundur segir vélina hafa gríðarlega mikla þýðingu bæði varðandi öryggi reykkafara og þann tíma sem það taki að finna fórnarlömb sem séu inni í brennandi húsi. Ef eldur kæmi til dæmis upp á trésmíðaverkstæði þar sem starfsólk væri fast inni gæti slökkviliðið farið mun hraðar yfir og skannað rýmið með myndavélinni, fundið allar hættur og séð fórnarlömbin mjög vel. Það sé því nánast ólýsanlegt hversu mikið öryggi myndavélin færi. Myndavélin getur einnig skipt sköpum þegar slys verða á Reykjanesbrautinni. Sigmundur segir að í bílslysum fáist slökkviliðið oft við mjög erfiðar aðstæður og þar séu oft fáir á vettvangi. Hann tekur dæmi af slysi þar sem fjórir til fimm séu í bíl um nótt. Ef einn kastist út og fólk sé kannski vankað og viti ekki um hann sé hægt að skanna svæðið í myrkrinu með myndavélinni og husanlega finna fórnarlambið miklu fyrr en ella.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×