Innlent

Vegagerðin sýknuð af kröfum ÍAV

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í morgun Vegagerðina af bótakröfum Íslenskra aðalverktaka og verktakafyrirtækisins NCC, sem fyrirtækin gerðu í kjölfar þess að gerð Héðinsfjarðarganga var blásin af á sínum tíma. Þá höfðu fyrirtæki í sameiningu lagt í verulegan undirbúningskostnað og áttu lægsta tilboð í verkið. Vegagerðin hafnaði síðan öllum tilboðunum og bar við peningaleysi vegna breyttrar vegaáætlunar. Fyrirtækin tvö sem áttu sameiginlegt tilboð gerðu einng kröfu til þess að fá greiddan þann hagnað sem þau höfðu reiknað sér af verkinu. Dómurinn staðfestir þá niðurstöðu kærunefndar um útboðsmál að Vegagerðin hafi gerst brotleg með verklagi sínu og gildi þá einu hvort ekki hafi lengur verið til fjármunir í verkið. Hins vegar telur dómurinn að fyrirtækin geti ekki sannað með óyggjandi hætti að þau hefðu fengið verkið þótt þau hafi átt lægsta tiboðið í það. Auk þess geti fyrirtækin ekki heldur sýnt fram á með óyggjandi hætti að þau hefðu hagnast af verkinu um þá upphæð sem þau höfðu reiknað sér. Dómsorðið er því að að Vegagerðin er sýknuð af öllum kröfum verktakanna og er málskostnaður felldur niður. Það var Gréta Baldursdóttir sem kvað upp dóminn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×