Erlent

Hryðjuverkamenn herða árásir sínar

Hryðjuverkamenn í Írak virðast vera að herða árásir sínar en verulega hafði dregið úr þeim eftir þingkosningarnar í landinu. Fjölmargar skotárásir og sprengjutilræði voru gerð í Írak í dag og státa al-Qaida hryðjuverkasamtökin af því að bera ábyrgðina. Verulega dró úr árásum eftir þingkosningarnar sem voru hryðjuverkamönnum mikið áfall vegna hinnar miklu þátttöku. Þeir virðast nú vera að sækja í sig veðrið á nýjan leik. Það eru svo mörg hryðjuverkasamtök í Írak að þau virðast beinlínis keppast við að fremja sem stórfelldust illvirki. Og stundum reyna þau að stela glæpnum hvert frá öðru. Það er þó lítill vafi á að að írakski al-Qaida armurinn, sem Jórdaninn Abu Musab Al-Zarqawi stýrir, er atkvæðamestur hryðjuverkahópanna. Í dag lýsti hann á hendur sér tveimur tilræðum sem kostuðu að minnsta kosti fimmtán manns lífið og særðu fjölmarga. Í báðum tilfellum var notast við bílsprengjur sem sjálfsmorðsvígamenn keyrðu. Mannskæðari árásin var gerð í grennd við írakska innanríkisráðuneytið þegar bíl, hlöðnum sprengiefni, var ekið á bílalest ráðherrans. Ráðherran slapp en fjölmargir vegfarendur létu lífið eða særðust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×