Innlent

Ekki þvinguð til uppsagnar

Íslenska ríkið var í gær sýknað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af bótakröfum Valgerðar Bjarnadóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu, en hún fór fram á rúmar þrettán milljónir króna fyrir töpuð laun og miskabætur vegna missis þeirrar stöðu sinnar. Forsaga málsins er að Valgerður sagði af sér stöðu framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu eftir að dómstóll komst að því að jafnréttislög hefðu verið brotin við ráðningu nýs leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar sem Valgerður var þá einnig formaður fyrir. Varð að samkomulagi að hún léti af störfum en fyrir dómi sagði Valgerður að slíkt hefði hún einungis gert vegna þrýstings enda ekkert til saka unnið. Var ennfremur á það bent að niðurstöðu héraðsdóms um að jafnréttislög hefðu verið brotin við ráðningu leikhússtjórans hefði verið snúið við í Hæstarétti og sakleysi hennar því sannað. Ósannað þótti dómnum að félagsmálaráðherra hefði þvingað Valgerði til afsagnar. Hún hefði ekki sett nein skilyrði fyrir uppsögn sinni og engin réttur hefði verið á henni brotinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×