Innlent

Ákæruvaldið snuprað í héraðsdómi

Héraðsdómur Reykjaness gagnrýnir málatilbúnað ákæruvaldsins í dómi yfir tvítugri konu sem fundin var sek í morgun fyrir þjófnað og gripdeildir á höfuðborgarsvæðinu í fyrra. Konan játaði skýlaust brot sín fyrir dómi. Hún hafði áður hlotið dóma í Héraðsdómi Reykjavíkur og Héraðsdómi Reykjaness 2003 og 2004 og verið dæmd í samanlagt 28 mánaða skilorðsbundið fangelsi, meðal annars fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Í niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness frá í morgun er bent á að saksækja skuli mann sem hafi framið fleiri en eitt brot í einu máli eftir því sem við verði komið. Ákæruvaldið eigi að hafa yfirsýn yfir þau mál þar sem ákæra hafi verið gefin út hverju sinni. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að hagsmuna ákærðu hefði ekki verið gætt sem skyldi með því að reka samtímis tvö sakamál á hendur henni fyrir sitthvorum dómstólnum. Ákæra var gefin út í september 2004 í málinu sem dæmt var í í Héraðsdómi Reykjaness en í desember 2004 í máli sem dæmt var í í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í dóminum í morgun sagði að æskilegra hefði verið að sameina málin. Héraðsdómur sagði brot hennar nú smávægileg og með hliðsjón af framangreindu taldi hann ekki ástæðu til að refsa henni fyrir þau.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×