Innlent

Björguðu skíðamönnum úr lífsháska

Fjölmennt lið björgunarsveitarmanna kom með tvo skíðamenn til Reykjavíkur í morgun sem þeir höfðu bjargað úr lífsháska við Hlöðufell á hálendinu í morgunsárið. Björgunarsveitarmenn brutust áfram í illviðri og við erfiðar aðstæður í alla nótt í átt að Hlöðufelli í grennd við Skjaldbreið og fundu mennina rétt fyrir klukkan sex í morgun, hrakta og kalda. Þeir höfðu ætlað að komast í ferðaskála við Hlöðufell þegar óveðrið skall á í gær en þegar þeir voru orðnir þreyttir og hraktir varð þeim ljóst að það tækist ekki og bjuggu þeir þá um sig í hraungjótu og kölluðu á hjálp. Björgunarmenn á vélsleðum komu fyrst að þeim og voru þeir fyrst fluttir í ferðafélagsskálann við Hlöðufell til að hlýja þeim og þar skoðaði læknir sem var í för með björgunarmönnum þá. Um það bil 60 björgunarsveitarmenn tóku þátt í leiðangrinum og flugvél Flugmálastjórnar flaug yfir leitarsvæðið til að halda uppi fjarskiptasambandi við leitarmenn. Einnig var búið að láta Landhelgisgæsluna vita, sem hafði sett þyrlu í viðbragðsstöðu ef eftir henni yrði óskað. Að sögn björgunarmanna munu mennirnir ná sér að fullu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×