Innlent

Minnstu munaði að stórslys yrði

Minnstu munaði að manntjón og stórslys yrði þegar eldur kviknaði í íbúð í sambýlishúsi við Rósarima í Grafarvogi laust fyrir klukkan tíu í morgun. Sjö manns, meira og minna úr öllum íbúðum hússins, voru fluttir á slysadeild Landsspítalans vegna gruns um reykeitrun eftir að íbúðin varð alelda á svipstundu. Eldurinn kviknaði í eldhúsi einnar íbúaðarinnar og logaði þar út um glugga og náði að teygja sig í gaskút fyrir utan. Hann sprakk í tætlur, að sögn Höskuldar Einarssonar, stöðvarstjóra hjá slökkviliðinu, og segir hann heppni að ekki varð manntjón. Hluti af kútnum lenti á næsta húsi og hluti flaug fram með húsinu. Að sögn Höskuldar munaði litlu að hann lenti á hópi barna sem þyrptust að vettvangi eftir að eldurinn kviknaði.  Við sprenginguna vankaðist slökkviliðsmaður og var fluttur á slysadeild en hann er að ná sér. Slökkvistarf gekk vel en mikið tjón varð víða í húsinu. Ekki er vitað um eldsupptök að svo stöddu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×