Innlent

Ber ábyrgð á gjörðum sínum

Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli segir Reyni Traustason, ritstjóra Mannlífs, þurfa að bera ábyrgð á gjörðum sínum þegar hann smyglaði um hálfu grammi af kókaíni til landsins í tengslum við bók sem hann vinnur að um fíkniefnaheiminn.  Reynir kom kókaíninu fyrir í sápustykki og kom því í gegnum hlið tollvarða á Keflavíkurflugvelli. Í kjölfarið gaf hann sig fram við tollverði og sagði frá fíkniefnunum. Reynir og þrír félaga hans sem vinna að gerð heimildarmyndar um vinnu Reynis við bókina voru allir handteknir og gistu fangageymslur lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli á meðan farangur þeirra var rannsakaður. Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, segir að málið sé litið alvarlegum augum. „Það er sjálfsagt að aðstoða Reyni við gerð þessarar heimildamyndar. Við viljum hjálpa öllum þeim sem vilja undirstrika skaðleika og alvarleika þessa fíkniefnaheims. En að gera þetta með þessum hætti er mjög alvarlegt og alls ekki nógu gott. Þetta truflar okkar vinnu og hann gerði sér enga grein fyrir því, held ég, hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér þegar hann fer af stað með þetta ævintýri sitt. Spurður hvort þetta sé skaðlegt fyrir embættið með hliðsjón af því að Reynir komst í gegn með efnin segir Jóhann svo ekki vera. Það sé í sjálfu sér ekkert nýtt að menn nái að smygla efnum inn í landið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×