Innlent

Með þrjá Pólverja ólöglega í vinnu

Íslendingur, sem var með þrjá Pólverja ólöglega í vinnu, verður ákærður í dag eða á morgun fyrir brot á útlendingalögum. Það er sýslumaðurinn í Árnessýslu sem ákærir en lögregluyfirvöld í Árnessýslu höfðu uppi á Pólverjunum rétt fyrir páska. Voru þeir ákærðir og strax dæmdir í eins mánaðar fangelsi, skilorðsbundið. Þar sem þeir eru borgarar í evrópska efnahagssvæðinu mega þeir vera áfram í landinu en ekki vinna gegn gjaldi, nema með atvinnuleyfi, samkvæmt bráðabirgðaákvæði þar um sem gildir þar til í maí á næsta ári. Eftir þann tíma geta borgarar af EES-svæðinu komið hingað til vinnu án atvinnuleyfis líkt og Íslendingar geta unnið hvar sem er á svæðinu án þess háttar leyfis. Málið hófst með því að Selfosslögreglan stöðvaði bíl vegna hraðaksturs og var einn Pólverjanna í honum sem leiddi til þess að hinir tveir fundust. Var einn þeirra hér í fjórða sinn, annar í annað en sá þriðji í fyrstu Íslandsferðinni. Allir játuðu þeir að hafa verið að vinna fyrir launum hjá verktakanum sem nú verður ákærður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×