Viðskipti innlent

Óska endurupptöku samrunamáls

Forsvarsmenn Og fjarskipta, sem meðal annars eiga 365 ljósvakamiðla, ætla að óska eftir því við samkeppnisyfirvöld að mál vegna samruna annars vegar Og fjarskipta og 365 ljósvakamiðla og hins vegar Landsíma Íslands og íslenska sjónvarpsfélagsins verði tekið upp aftur. Ástæðan er sögð vera sú að ekki hafi verið gætt samræmis milli félagsins og Landssímans þegar skilyrði fyrir sameiningu hafi verið sett. Samkeppnisráð birti í síðustu viku niðurstöður sínar vegna samrunans. Í tilkynningu frá til Kauphallar Íslands segir að forsenda þess að Og fjarskipti hafi fallist á umrædd skilyrði hafi verið sú að jafnræðis yrði gætt milli Og fjarskipta og Landssímans við setningu skilyrðanna. Í ljós hafi komið að jafnræðis hafi ekki verið gætt milli aðila með þeim hætti að Landssímanum hafi verið sérstaklega leyfð ákveðin hegðun sem Og fjarskiptum hafi verið bönnuð. Forsendan fyrir samþykki Og fjarskipta á skilyrðunum sé því brostin og því verði óskað eftir endurupptöku málsins.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×