Viðskipti innlent

Uppbygging á Arnarneshálsi

Tæplega 500 íbúðir munu rísa á nýju byggingarlandi á Arnarneshálsi í Garðabæ á næstu þremur árum. Samningur þess efnis var undirritaður fyrir helgi af Ásdísi Höllu Bragadóttur bæjarstjóra, Ágústi Kr. Björnssyni framkvæmdastjóra Akralands og Sigurði Ragnarssyni framkvæmdastjóra Arnarlands en fyrirtækin tvö eiga lóðirnar. Akraland á 139 einbýlishúslóðir og Arnarland mun reisa fjölbýlishús á sinni lóð með 333 íbúðum. Akrahverfi liggur sunnan við Arnarnesveg og markast að vestan af Hafnarfjarðarvegi. Landið verður byggt í þremur verkáföngum að sögn Ágústar. Miðja svæðisins verður byggð fyrst og síðan til sitt hvorrar handar. Áformað er að hefja gatnagerð fljótlega en bygging íbúða gæti hafist síðla næsta sumar, segir Ágúst. Annar áfangi hefst næsta vor og áfangi þrjú árið 2007. Ágúst segist ánægður með að þessum áfanga skuli vera náð, enda sé það forsenda þess að uppbygging geti hafist. Akraland mun selja lóðirnar á sínu landi og mun sala lóðanna hefjast fljótlega eftir páska.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×