Innlent

Gekk berserksgang á lögreglustöð

Sunnlenskur atvinnurekandi gekk berserksgang á lögreglustöðinni á Selfossi í gær þegar hann ætlaði að sækja þangað íslenskan ökumann sinn sem hafði verið stöðvaður fyrir of hraðan akstur og með útrunnið ökuskírteini. Hafði ökumaðurinn verið að aka pólskum starfsmanni atvinnurekendans til vinnu í uppsveitum Árnesssýslu en Pólverjinn hafði ekki atvinnuréttindi. Lögreglumenn urðu að stinga atvinnrekandanum í fangaklefa en við athugun í höfuðstöðvum hans í Rangárvallasýslu fundust aðrir tveir Pólverjar sem teknir voru til yfirheyrslu. Pólverjarnir eru allir grunaðir um að starfa hér án atvinnuréttinda. Einn þeirra hefur komið hingað til lands fjórum sinnum og dvalist í tæpa þrjá mánuði í senn, annar var hér í annað sinn og sá þriðji var í fyrstu Íslandsferðinni. Mál þeirra verða send viðeigandi yfirvöldum, en stutt er síðan lögreglan á Selfossi stöðvaði nokkra Pólverja á bíl fyrir of hraðan akstur og eru þeir líka grunaðir um að starfa hér án réttinda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×