Menning

Jógagúru í Hollywood í dómssal

Einum þekktasta jógakennara Bandaríkjanna, Bikram Choudhury, hefur nú verið stefnt fyrir rétt vegna yfirlýsinga hans um að hann telji sig eiga einkarétt á vissri röð jógastellinga. Hann hefur sett saman 26 stellingar sem farið er tvisvar í gegnum í hverjum tíma í mjög heitu herbergi. Er kennurnum gert að undirgangast ákveðna þjálfun og fá sérstök réttindi til að fá að kenna aðferð hans sem hann kallar Bikram jóga. Choudhury, sem er á sextugsaldri, hafði sent harðorð bréf til um 100 Bikram jógaskóla og kennara sem ekki höfðu hlotið sérstaka þjálfun hjá honum og ásakað þá um að brjóta á höfundarrétti hans. Þetta varð til þess að einn af umræddum jógaskólum svaraði honum með lögsókn. Í kæru forsvarsmanna skólans segir að Bikram hafi ekki fundið upp umræddar stellingar þar sem þær hafi verið til frá órófi alda og öllum aðgengilegar. Lögfræðingur Bikram svarar þessu svo til að hann sé ekki að krefjast einkaréttar á stellingunum sjálfum heldur samsetninu þeirra. Þetta sé að vissu leyti eins og höfundarréttur á lagi, sem snúist ekki um einkarétt á nótunum sjálfum heldur röð þeirra.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×