Innlent

Vopnið fjörugt ímyndunarafl

Jóhann R. Benediktsson sýslumaður á Keflavíkurflugvelli segir frammistöðu tollvarða sem handtóku 64 ára gamla konu með 800 grömm af kókaíni í hárkollu þann 12. mars vera framúrskarandi og á heimsmælikvarða. "Ég hef heyrt á tali manna að gengið hafi verið frá hárkollunni með þeim hætti að vera áberandi, en því fór fjarri. Þetta blasti ekki við, enda má nærri geta hvort menn hefðu gert þetta með viðvaningslegum hætti. Þarna eru miklir fjármunir í húfi og án efa fagmanneskja sem bjó um efnin á þeim stað sem þau voru," segir Jóhann, sem telur smygltilraunina þá frumlegustu og djörfustu í langan tíma. "Öllum ráðum er beitt við smygl fíkniefna. Menn hafa sett fíkniefni í brauðbretti, niðursuðudósir, leikföng, sælgætisumbúðir, leyst þau upp í vökvaform og geymt þau innvortis, svo dæmi séu tekin. Við gætum ekki sinnt þessu nema að hafa álíka gott, ef ekki fjörugra, ímyndunarafl og þeir sem við glímum við og þurfum að hugsa eins og þeir til að átta okkur á hverju við eigum næst von. En við upplýsum aldrei hvað leiðir til þess að við tökum fólk í skoðun, sem eru ótal þættir og þar á meðal sjötta skilningarvit starfsmannanna," segir Jóhann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×