Innlent

Faldi kókaín í hárkollunni

"Þetta er ein djarfasta og ósvífnasta smygltilraun sem við höfum orðið vitni að," sagði Jóhann R. Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli, en 12. mars síðastliðinn var 64 ára gömul kona handtekin þegar hún reyndi að smygla 800 grömmum af kókaíni til landsins frá Amsterdam. Konan, sem er heyrnarskert, var tekin í úrtaksleit en ekkert fannst á henni við þá leit. Árvökull tollgæslumaður veitti þá hári hennar athygli og viðurkenndi hún þá að vera með hárkollu. Styrktust þar með grunsemdir og var hún handtekin og færð til lögreglunnar í Reykjavík. Þar kom í ljós að konan var með sérsaumaða hárkollu sem var saumuð föst á höfuð hennar en þar undir voru fíkniefnin. Konan, sem er bandarískur og hollenskur ríkisborgari, hefur verið úrskúrðuð í gæsluvarhald til 1. apríl og beinist rannsókn lögreglu að því að finna samverkamenn hennar hér á landi en telja má nær öruggt að hún hafi ekki verið ein að verki. Talið er að andvirði efnanna sé á bilinu 15-30 milljónir króna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×