Viðskipti innlent

Bankarnir með fjórðung íbúðalána

Bankarnir hafa tekið til sín fjórðung allra íbúðalána síðan þeir hófu að bjóða upp á þau fyrir rúmu hálfu ári. Bankarnir lána nú að meðaltali 26 milljarða króna í hverjum mánuði en Íbúðalánasjóður fjóra og hálfan milljarð. Íbúðalánasjóður hefur svarað samkeppninni með því að hækka hámarkslán og veðsetningarhlutfall og hefur það styrkt stöðu hans. Íslendingar hafa bætt við sig um áttatíu milljörðum í fasteignalán síðan bankarnir hófu innreið sína á þann markað í ágúst í fyrra. Það er því enginn vafi að kakan hefur stækkað en hlutdeild Íbúðalánasjóðs í þeirri sömu köku fer hratt minnkandi. Í júní, júlí og ágúst í fyrra var Íbúðalánasjóður með ríflega 80 prósenta markaðshlutdeild en lífeyrissjóðrnir með afganginn. Bankarnir fóru svo að sjást í september og fór hlutdeild þeirra svo vaxandi, aðallega á kostnað Íbúðalánasjóðs. Nú er svo komið að bankarnir eru með fjórðung allra íbúðalána. Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, sérfræðingur hjá greiningardeild Landsbankans, segir að heimilin séu enn að skuldbreyta lánum sínum og það hafi leitt til þess að íbúðalán bankanna hafi aukist. Á sama tíma greiði fólk upp lánin sín hjá Íbúðalánasjóði í tölvuerðum mæli, en uppgreiðslurnar séu fleiri en ný lán Íbúðalánasjóðs. Þetta leiði til þess að markaðshlutdeild bankanna haldi áfram að aukast á kostnað Íbúðalánasjóðs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×