Innlent

Fundu barnaklám í áhlaupi

Barnakláms var leitað í sjö húsum í gær í samræmdum aðgerðum lögregluembætta í Reykjavík, í Kópavogi og á Akureyri. Þrír menn voru handteknir. Böndin bárust til Íslands við rannsókn finnsku lögreglunnar á barnaklámsmáli þar í landi. Þrír menn voru handteknir eftir leit í þremur húsum í Reykjavík þar sem fannst töluvert magn af barnaklámi í tölvum, á diskum og á myndböndum. Mönnunum var sleppt að loknum yfirheyrslum en mismikið efni fannst hjá þeim. Í Kópavogi var leit gerð í einu fyrirtæki vegna niðurhals á barnaklámi úr þremur tölvum fyrirtækisins. Nokkrar myndir af barnaklámi fundustu í tölvunum. Enginn hefur verið handtekinn vegna þessa en að sögn aðstoðaryfirlögregluþjóns í Kópavogi er rannsókn málsins hvergi nærri lokið. Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn í Reykjavík, segir rannsóknir málanna sem snúa að hans embætti vera langt á veg komnar. Hann segir ekki grun vera um kynferðisofbeldi gegn börnum hér á landi heldur varði brotin vörslu barnakláms sem er með öllu óheimil. Leitað var í einu húsi á Akureyri og voru tvær tölvur gerðar upptækar. Daníel Guðjónsson, yfirlögregluþjónn á Akureyri, segir ekki liggja fyrir hversu mikið af barnaklámi hafi fundist í húsleitinni og á hann jafnvel von á að leitað verði aðstoðar lögreglunnar í Reykjavík við að fara yfir efnið. Engin hefur verið handtekinn þar en rannsókn málsins er á frumstigi. Upplýsingar frá finnsku lögreglunni bárust til alþjóðadeildar ríkislögreglustjóra í lok febrúar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×