Innlent

Rann í hálku en fær ekki bætur

Kínverska kjötbollugerðin ehf., sem rak veitingahúsið Kaffi Nauthól í Nauthólsvík, var í dag sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur af kröfum konu sem rann á trépalli utan við veitingastaðinn í desember árið 2002 og axlarbrotnaði. Konan höfðaði mál og krafðist skaðabóta þar sem hún taldi að ekki hefði verið varað nægilega vel við því hversu háll pallurinn væri og starfsmenn hefðu ekki gripið til neinna aðgerða, til dæmis með því að bera sand á pallinn. Fulltrúar Kínversku kjötbollugerðarinnar sögðu hins vegar að konan hefði verið áberandi drukkin og miðað við veðurfar og árstíma hefði pallurinn ekki verið hálli en gera mátti ráð fyrir. Sem fyrr segir komst Héraðsdómur að þeirri niðurstöðu að fallið hefði verið á ábyrgð konunnar sjálfrar og greiðist gjafsóknarkostnaður stefnanda úr ríkissjóði en málskostnaður fellur niður.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×