Innlent

15 ára í einangrun á Litla-Hrauni

Tveir fimmtán ára piltar sitja nú í einangrun á Litla-Hrauni. Þeir eru grunaðir um níu innbrot. Afbrotafræðingur hjá Fangelsismálastofnun segir sjaldgæft að svo ungt fólk sé úrskurðað í gæsluvarðhald. Farið var fram á gæsluvarðhald yfir piltunum í gær vegna rannsóknarhagsmuna en varðhaldið rennur út á mánudag. Í innbrotunum var stolið fjölda fartölva, DVD-spilurum og fleiri heimilistækjum. Fleiri eru hugsanlega grunaðir um að eiga þátt í innbrotunum sem áttu sér stað á Seltjarnarnesi og Vesturbæ Reykjavíkur. Sá sem áður hefur setið í gæsluvarðhaldi hlaut skilorðsbundinn dóm í kjölfar varðhaldins en þá var farið fram á að pilturinn sætti síbrotagæslu. Spurður hvort 15 ára afbrotamenn fái sömu meðferð og aðrir gæsluvarðhaldsfangar segir Erlendur Baldursson afbrotafræðingur að menn verði sakhæfir 15 ára gamlir hér á landi. Hvað meðferðina varði segir hann að tekið sé tillit til hvers og eins einstaklings, m.a. með hliðsjón af aldri og eðli brotsins.  Erlendur segir afar sjaldgæft að svo ungt fólk sé úrskurðað í gæsluvarðhald og því hafi umræddir piltar væntanlega brotið „eitthvað verulega af sér“. Hann segir að piltarnir gætu fengið dóm og þyrftu því að hefja afplánun mjög ungir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×